Samantekt um þingmál

Stimpilgjald

569. mál á 150. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að stuðla að skýrari og einfaldari skattframkvæmd hvað varðar innheimtu stimpilgjalda.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til breytingar á gjaldstofni stimpilgjalds við álagningu í kjölfar íbúðarkaupa. Gert er ráð fyrir að kveðið verði skýrar á um það þegar gjaldstofn til stimpilgjalds af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna, þar sem skráð fasteignamatsverð endurspeglar ekki byggingarstig eignar eins og það verður við afhendingu, skuli miða gjaldstofninn við áætlað matsverð sem tekur mið af byggingarstigi viðkomandi eignar við afhendingu. Lagt er til að kveðið verði með skýrari hætti á um það að skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi vegna kaupa á fyrstu íbúð er að kaupandi íbúðarhúsnæðis hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði, hvort sem er með kaupum, arftöku, gjafagerningi eða eignaryfirfærslu með hvers kyns öðrum hætti. Í þessu tilliti skiptir það jafnframt ekki máli hvort kaupandinn hafi hagnýtt sér íbúðarhúsnæðið, sem hann hefur áður verið þinglýstur eigandi að, í eigin þágu eða á nokkurn annan hátt. Enn fremur er lagt til að fellt verði brott ákvæði varðandi skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi vegna kaupa á fyrstu íbúð um að kaupandinn þurfi að verða þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi þeirrar eignar sem keypt er.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um stimpilgjald, nr. 138/2013.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir óverulegum áhrifum á afkomu ríkissjóðs.

Afgreiðsla

Samþykkt með breytingum sem voru tæknilegs eðlis.

Aðrar upplýsingar

Úrskurður yfirskattanefndar frá 12. júní 2019, nr. 103/2019.


Síðast breytt 10.06.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.